Hvað er átt við þegar talað er um einfalda vefsíðu?

Einföld vefsíða – byrja smátt og nýta sér kosti Drupal til að stækka og nýta möguleikana ef starfsemin stækkar

Oft á tíðum fáum við fyrirspurnir þar sem sérstaklega er tekið fram að viðkomandi vilji einfalda vefsíðu.  Stundum er um einfalda vefsíðu að ræða en svo kemur fyrir að fyrirspyrjandi bætir við að hann vilji hafa fréttakerfi, atburðadagatal, vörulista og helst verslunarvef með greiðslugátt, en samt sé hann að leita að uppsetningu á einfaldri vefsíðu.  Miðað við margbreytileika lýsinga á einfaldri vefsíðu þótti okkur tímabært að skilgreina einfalda vefsíðu, eða að minnsta kosti setja fram okkar skoðun á því hvað einföld vefsíða er.

Hvað er einföld vefsíða?

Til að byrja með er hægt að skilgreina einfalda vefsíðu sem vefsíðu sem hefur fimm til níu tengla í aðalleiðakerfi og enga aðra tengla.  Þetta er vefsíða sem er á einu tungumáli og kynnir ákveðna starfsemi eins og lítið fyrirtæki, þjónustu eða vöru hjá einyrkja og er ekki sérlega efnismikil.  Vefsíðan skiptist í haus, láréttum borða með aðalleiðakerfi, einn eða tvo dálka, áberandi stað fyrir meginefni og fót til að hýsa mikilvægar upplýsingar sem allir sjá hvar sem þeir eru staddir. Á vefsíðunni er samt nægjanlega mikið efni til að koma öllu til skila ásamt því að vekja áhuga leitarvéla. Til þess að notandi vefsíðunnar og eigandi geti með góðu móti lagað allt efni vefsíðunnar, eins og texta og myndir, þarf vefsíðan að hafa aðgengilegt vefumjónarkerfi og þá um leið aðgangsstýringarkerfi.  Að lokum þarf að gera þá kröfu til útlits vefsíðunnar að það sé einfalt, þægilegt og smekklegt.  Hér á skýringarmyndinni fyrir neðan eru helstu þættir í uppbyggingu einfaldrar vefsíðu útskýrðir.