Hvernig á að setja upp veftré?

Hvað er veftré?

Veftré er hugtak sem er notað til þess að átta sig á og skilgreina uppbyggingu vefsíðunnar. Þannig myndar leiðakerfið efst á hverri vefsíðu kjarnann í veftrénu. Á þeim stað í láréttum borða eru gjarnan fimm til níu tenglar sem mynda aðalleiðarkerfi vefsíðunnar. Út frá þeim kjarna, aðalleiðarkerfinu, hríslast síðan hinar ýmsu greinar sem auðvelda gestum vefsíðunnar að átta sig á þeim upplýsingum sem henni er ætlað að veita. Ekki er óalgengt að sjá tengla eins og Heim, Um okkur, Okkar vörur, Staðsetning eða Hafa samband í aðalleiðarkerfinu.

Hrísla út frá aðalleiðarkerfi

Dæmi um hríslu undir aðalleiðakerfinu er annað leiðakerfi sem gjarnan er lóðrétt í dálki vinstra megin. Samanber listinn undir MÖGULEIKAR á myndinni af vefsíðu DRUPAL hér fyrir neðan. Leiðakerfi sem sést þegar gesturinn smellir á tengil í aðalleiðakerfinu. T.d. ef gesturinn smellir á tengil sem heitir MÖGULEIKAR í aðalleiðarkerfinu birtist listi möguleika í vinstri dálki. Ef fyrirtækið er fataverslun gæti listinn samanstaðið af Kvenföt, Karlmannsföt, Barnaföt, Húfur, Skór o.s.frv. Ef gesturinn smellir hins vegar á tengil eins og UM OKKUR  sér hann nýtt leiðakerfi, nýjan lista, sem gæti verið Starfsfólk, Saga fyrirtækisins, Staðsetning og annað sem fyrirtækið, einstaklingur, félagið eða stofnunin sem er að setja upp vefsíðu telur æskilegt að koma á framfæri.

Hvers vegna er mikilvægt að setja upp veftré í upphafi?

Veftréð er eitt af því fyrsta sem þú þarft að huga að þegar þú setur upp vefsíðu. Það er ekki aðeins kjarninn í vefsíðunni heldur gefur það glöggt yfirlit yfir það sem þú ætlar að segja þegar þú ákveður að setja upp vefsíðu. Hvað þú ætlar að kynna. Að auki er veftréð þægilegt tæki til að átta sig á umfangi og stærð vefsíðunnar sem þú ætlar að opna. Með því að setja upp veftré er einfaldara fyrir þig að sjá hversu mikinn texta þarf á síðuna og hvers konar myndir er heppilegt að velja. Veftréð er þannig eins og teikning fyrir hús eða landakort fyrir leiðangur.

Hvers vegna er gagnlegt fyrir þig að setja upp veftré?

Þegar þú hefur ákveðið að setja upp vefsíðu og leita eftir tilboði í vefsíðugerð er mjög góð regla að byrja á að setja upp veftré. Þá ferðu í gegnum mikilvæga undirbúningsvinnu og alla þá þætti sem tilheyra þinni vefsíðu. Þú glöggvar þig á uppsetningu og bestu leiðinni til að kynna efnið og ert í góðri aðstöðu til að hugsa um uppbygginu vefsíðunnar. Þú ert líka í góðri aðstöðu til að breyta veftrénu áður en þú sendir út ósk um tilboð. Þú færð með þessum hætti greinargóða mynd af vefsíðunni þinni.

Hvernig er best að setja upp veftré?

Ein góð leið til að setja upp veftré er að nota Excel töflureikni til að skipuleggja vefsíðuna. Excel er forrit sem flestir þekkja og hafa einhvern tíma lært að nota. Þá er aðalleiðakerfinu stillt upp í lárétta röð og tenglum í viðbótarleiðakerfum stillt upp lóðrétt í dálkana fyrir neðan. Og oft á tíðum er frumtexti vefsíðunnar stuttur og má þá nota „edit comment“ valkostinn þegar þú hægri smellir á reitinn sem geymir tengilinn í Excel skjalinu, til þess að láta textann fylgja með skjalinu. Þá sést rauður þríhyrningur efst hægra megin í reitum. Með þessari aðferð er í raun einfalt og auðvelt að setja upp veftré, eða uppbygginu og efni fyrir vefsíðu.

Hérna má sækja Excel skjal sem hjálpar til við uppsetningu á veftré.  Sækja skjal